Wayne Rooney, stjóri DC United, var bálreiður bæði í og eftir leik liðsins við FC Toronto um helgina.
DC United tapaði gegn botnliði Toronto 2-1 en Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn í miðverði.
Rooney var virkilega ósáttur með spilamennsku sinna manna í fyrri hálfleik og gerði þrjár skiptingar áður en flautað var til leikhlés.
Staðan var 1-0 fyrir Toronto eftir fyrri hálfleikinn en liðið bætti við öðru á 72. mínútu áður en Christian Benteke lagaði stöðuna í 2-1 tapi.
,,Ég hefði viljað getað skipt þeim öllujm útaf. Ég þurfti að halda öðrum tveimur inná ef einhver skyldi meiðast,“ sagði Rooney.
,,Fyrri hálfleikurinn var svo langt frá því að vera nógu góður. Augljóslega hefði ég getað beðið þar til í hálfleik en þetta voru meira skilaboð til liðsins að mér líkaði alls ekki við það sem var í gangi.“
Sem betur fer fyrir okkar mann, Guðlaug Victor, átti hann ágætis leik og fékk 6,4 í einkunn fyrir sína frammistöðu.