Víkingur vann öruggan sigur á KA í Bestu deild karla í kvöld. Liðið hefur unnið alla níu leiki sína það sem af er keppni.
Það sást fljótt í hvað stefndi í kvöld og gestirnir úr borginni komust yfir strax á 3. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson skoraði. Fyrsta mark hans fyrir Víking í Bestu deildinni. Áður en hálfleiksflautið gall bætti Víkingur við marki. Þar var að verki Birnir Snær Ingason.
Lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar héldu áfram að bæta í. Matthías skoraði annað mark sitt strax í upphafi seinni hálfleiks. Ari Sigurpálsson kórónaði svo frábæran leik Víkings með marki í lokin. Lokatölur 0-4.
Sem fyrr segir var þetta níundi sigur Víkings í röð í byrjun leiktíðar. Hefur liðið þar með bætt árangur Breiðabliks frá því í fyrra, en Íslandsmeistararnir unnu fyrstu átta leiki sína.
Besta byrjun í sögu Íslandsmóts eru hins vegar 16 sigurleikir. Það var Valur sem vann fyrstu 16 leiki sína árið 1978.
2023 Víkingur 9️⃣ https://t.co/cU6n7LlPDb
— Áhugaverðar staðreyndir um íslenska knattspyrnu (@OReyndir) May 25, 2023