Newcastle er að ganga frá samningi við fyrirtækið Sela í Sádí Arabíu sem verður helsti styrktaraðili félagsins. Er þetta stærsti samningur sem Newcastle hefur gert.
Sela er í eigu ríkisins í Sádí Arabíu en sömu aðilar eru svo eigendur Newcastle.
Segir í grein Times að þetta muni reyna á regluverk enska sambandsins um það hvernig eigendur koma fjármagni inn í félögin.
Times segir að Newcastle muni fá 25 milljónir punda á ári frá Sela, er það nokkuð minna en stærstu félög Englands fá í gegnum sína samninga.
Sela er fyrirtæki sem sér um að skipuleggja íþróttaviðburði út um allan heim en ætlar sér nú að styrkja Newcastle hressilega.
Manchester City hefur verið sakað um að fara þessa leið að nýta eigendur sína í að dæla inn peningum í félagið í gegnum umdeilda styrktarsamninga.
Newcastle verður í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en aðilar frá Sádí Arabíu keyptu félagið fyrir 18 mánuðum.