Kim Kardashian fær nú á baukinn frá reiðum stuðningsmönnum Arsenal.
Skytturnar voru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar lengst af tímabili en misstu svo af titlinum til Manchester City með slæmu gengi í restina.
Það má segja að kaflinn sem um ræðir hafi hafist í leik gegn Sporting í mars. Þá féll Arsenal úr leik í Evrópudeildinni og missti William Saliba í meiðsli.
Tala einhverjir stuðningsmenn Arsenal nú um „Kim Kardashian-bölvunina.“
„Ég kenni Kim Kardashian um hrun Arsenal,“ skrifaði einn.
„Arsenal væri að fara að lyfta Englandsmeistaratitlinum ef það væri ekki fyrir Kim Kardashian,“ skrifaði annar.
Enn einn tók til máls. „Þetta hófst allt þegar hún mætti á Emirates. Ég mun aldrei fyrirgefa þér Kim Kardashian.“
Fleiri tóku í sama streng, en það má þó ætla að flestir séu að grínast.