Tveir leikir fóru fram í Bestu deild karla í kvöld.
Í Kórnum tók HK á móti Víkingi. Gestirnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu eftir hann. Markið gerði Viktor Örlygur Andrason eftir um hálftíma.
Á 74. mínútu tvöfölduðu Víkingar forystu sína. Þar var að verki Nikolaj Hansen með skallamark.
Skömmu síðar urðu lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar hins vegar manni færri eftir ljóta tæklingu Karls Friðleifs Gunnarssonar á Eyþóri Wöhler.
Eyþór var svo aftur í sviðsljósinu þegar um fimm mínútur lifðu leiks þegar hann minnkaði muninn fyrir HK.
Heimamenn reyndu að finna jöfnunarmark en allt kom fyrir ekki. Víkingur sigldi 1-2 sigri í hús í Kópavoginum.
Víkingur er enn með fullt hús stiga, 24 talsins, á toppi deildarinnar eftir átta umferðir. HK er í fjórða sæti með 13 stig.
Á sama tíma tók Valur á móti Keflavík að Hlíðarenda.
Þar varð niðurstaðan afar óvænt markalaust jafntefli. Gestirnir lokuðu ansi vel á heimamenn sem fengu þó góð færi þegar leið á leikinn.
Afar svekkjandi niðurstaða fyrir Val, en Keflavík hefur verið í vandræðum undanfarið.
Valur er í öðru sæti deildarinnar með 19 stig. Keflavík er í því ellefta með 5 stig.