Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var gestur í hlaðvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í hádeginu.
Aron er leikmaður Al-Arabi í Katar en hann varð á dögunum bikarmeistari með félaginu í fyrsta sinn.
Aron er 34 ára gamall en hann hefur spilað með Al-Arabi undanfarin fjögur ár eftir að hafa leikið í ensku deildunum með Cardiff.
Um tíma var Heimir Hallgrímsson stjóri Arons hjá Al Arabi en hann er nú að vinna undir nýjum manni sem ber nafnið Younes Ali sem er frá Katar.
Aron segist vonandi ekki vera á förum frá Al-Arabi á næstunni en hann er samningsbundinn félaginu í eitt ár til viðbótar.
,,Ég gerði samning út tímabilið og fékk automatic annað ár sem ég ætla að taka. Ég vildi fá tvö ár fyrir síðasta tímabil en þeir sögðu mér að þeir vildu frekar gefa mér option, maður er orðinn eldri,“ sagði Aron.
,,Upprunarlega gerði ég þriggja ára samning og auðvitað hafa komið tímar þar sem ég hugsa um gamla pakkann sem var meira competitive dæmi en svo hugsar maður með sér að þetta sé skárra fyrir líkamann og fjölskylduna, við konan höfum það gott. Þetta er svo lítið svæði og maður er lítið að ferðast. Maður er vanur að ferðast frá Cardif till Middlesbrough og svo ertu búinn á því á sunnudeginum, það er þægilegt upp á það að gera. Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu, okkur líður vel og líkaminn er í góðu standi.“
,,Ég vissi alveg að ég myndi sakna búningsherbergisins á Englandi og bantersins, Championship deildin er relentless, leikur eftir leik og maður var kominn í þá rútínu. Svo hugsaði ég með mér að maður þyrfti að breyta til svo að ferillinn gæti verið lengri.“
Aron bendir einnig á að hann sé búinn að léttast um allt að fimm kíló síðan hann byrjaði að spila í deildinni í Katar.
,,Ég var um 87 til 88 kíló og það fór niður í 83-84 kíló. Það var markvisst hjá mér að slípa mig niður og vera léttari á fæti.“
Aron var um tíma ekki valmöguleiki fyrir Arnar Þór Viðarsson, þáverandi landsliðsþjálfara, eftir að hafa verið sakaður um kynferðisbrot árið 2021.
Málið var látið falla niður og var það mikill léttir fyrir hann sem og stuðningsmenn íslenska landsliðsins er hann sneri aftur í hópinn.
Aron gat ekki spilað leik gegn Bosníu í undankepnni EM fyrr á árinu vegna leikbanns en skoraði svo þrennu gegn Liechtenstein í kjölfarið í sannfærandi sigri. Leikurinn gegn Bosníu tapaðist hins vegar sannfærandi.
,,Ég hef alltaf sagt það að ég hef lifað fyrir fótboltann og ferillinn hefur mikið snúist um landsliðið svo það var alltaf planið að koma til baka og sýna úr hverju ég er gerður og hjálpa liðinu. Við vitum öll að kynslóðaskipti hafa tekið tíma og það er gott að hafa reynslumikla menn til taks sem stjórna því og hjálpa mönnum.“
,,Ég hefði verið til í að spila Bosníuleikinn, þetta var ömurlegt, það er svo auðvelt að sitja í stúkunni og sjá hvað er að fara úrskeiðis. Það er öðruvísi þegar þú ert inná en ég sjálfur hefði getað skipulagt hlutina öðruvísi þegar kom að varnarleik og fært okkur ofar eða eitthvað álíka.“
,,Það voru ýmsir hluti sem gerðust en það var pirrandi að horfa á þetta í stúkunni, eitthvað sem maður gat ekki lagað sjálfur. Sérstaklega á svona útivöllum sem eru erfiðir að sækja.“
Aron tjáði sig svo í kjölfarið um Age Hareide sem er nýr landsliðsþjálfari Íslands en hann hefur tekið við af Arnari Þór Viðarssyni.
Aron þekkti lítið til Age áður en hann tók við en hefur nú talað við Norðmanninn og virðast þeir ná vel saman.
Þeir munu fyrst æfa saman þann 6. júní en Age vildi að leikmenn Íslands myndu mæta fyrr til æfinga fyrir verkefnið í næsta mánuði.
,,Ég þekkti hann ekki fyrir en ég hafði talað við Kára [Árnason] og spurði hann út í hann en ég átti gott spjall við hann eftir fyrsta blaðamannafundinn. Það var gott spjall og ég er spenntur fyrir þeim breytingum sem hann ætlar að koma með,“ sagði Aron.
,,Auðvitað er þetta úrslitatengt, hann þarf að ná í úrslit. Ég hlakka til að mæta á æfingu þann 6. júní og vonandi verður sumarið geggjað og við náum í sex stig.“
,,Planið var að endurskipuleggja varnarleikinn, það hefur virkað fyrir okkur áður og virkar vonandi áfram en það þarf smá tíma til ða venjast nýjum þjálfara. Við höfum ekki mikinn tíma en það er gott að við getum byrjað saman fyrr. Hann ætlar að fá okkur saman fyrr og það er gott fyrir okkur. Hann hefur þá meiri tíma til að drilla okkur.“