Javier Zanetti, goðsögn Inter, vill frekar að hans menn mæti Manchester City en Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Inter sló granna sína í AC Milan úr leik í gær og er komið í úrslitaleikinn.
Þar verður andstæðingurinn Real Madrid eða Manchester City. Þau mætast í seinni leik sínum í undanúrslitum í kvöld, en fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í spænsku höfuðborginni.
„Þetta er mjög tilfinningaþrungið og liðið á þetta skilið,“ sagði Zanetti, sem vann Meistaradeildina með Inter árið 2010, eftir leik í gær. Hann fjallaði um hann fyrir Sky á Ítalíu.
„Við sjáum hver andstæðingurinn verður en það er þegar mjög stórt að vera komnir alla leið hingað.
Ég væri til í að sleppa við að mæta Real Madrid því það er eins og keppnin sé búin til fyrir þá.“
Real Madrid hefur unnið Meistaradeildina 14 sinnum, þar af 5 sinnum á síðustu 9 tímabilum.