Inter er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir þægilegan sigur á nágrönnum sínum í AC Milan í undanúrslitunum.
Um seinni leik liðanna var að ræða en Inter vann þann fyrri 2-0.
Milan fékk sína sénsa í dag en gerði aldrei nóg til að ógna forystu Inter almennilega.
Það fór svo að Inter gerði endanlega út um einvígið með marki Lautaro Martinez á 74. mínútu.
Inter vann 1-0 og er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í sjötta sinn.
Það kemur í ljós annað kvöld hver andstæðingur þeirra verður, en Manchester City og Real Madrid mættust í hinu undanúrslitaeinvíginu.
Staðan þar eftir fyrri leikinn er 1-1. Seinni leikurinn fer fram í Manchester.