Íþróttavikan er komin á fulla ferð á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson sjá um þáttinn og fá þeir til sín góða gesti alla föstudaga. Í síðasta þætti voru þeir Andri Geir Gunnarsson og Vilhjálmur Freyr Hallsson úr hlaðvarpinu Steve Dagskrá gestir.
Fyrri leikirnir í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu fóru fram í síðustu viku og eru seinni leikirnir spilaðir í þessari. Í öðrum þeirra mætast nágrannaliðin AC Milan og Inter. Síðarnefnda liðið vann fyrri leikinn 2-0 og er með sterka stöðu fyrir seinni leikinn, sem fer einmitt fram í kvöld.
„Ég er mjög ánægður með úrslitin því ég held að Inter eigi miklu meiri séns en AC Milan í úrslitum,“ sagði Andri.
Vilhjálmur tók til máls. „Inter er búið að tapa fullt af leikjum í deildinni á tímabilinu en það hefur ekkert að segja í þessu. Þeir setja bara upp í einn leik og reyna að vinna 1-0.“
Inter er ekki stjörnum prýtt lið þó svo að það sé komið með annan fótinn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
„Það er ótrúlegt að horfa á byrjunarliðið þarna. Þú ert með Mkhitaryan, Edin Dzeko, Matteo Darmian. Það er af sem áður var,“ sagði Andri.
Umræðan um Meistaradeildina í síðasta þætti er í heild hér að neðan.