Arsenal er að snúa aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð í fyrsta sinn síðan tímabilið 2016-2017. Liðið gæti lent í erfiðum riðli.
Það er nokkuð ljóst að lærisveinar Mikel Arteta hafna í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á þessari leiktíð. Liðið var lengi vel í bílstjórasætinu um Englandsmeistaratitilinn en slæmt gengi undanfarið þýðir að Manchester City er komið með níu fingur á hann.
Þrátt fyrir það er um að ræða besta árangur Arsenal í háa herrans tíð og liðið á leið í Meistaradeildina á ný.
Þar er þó líklegt að Skytturnar verði í þriðja styrkleikaflokki, sökum dræmrar uppskeru á stærsta sviði Evrópu undanfarin ár.
Í efsta styrkleikaflokki verða sigurvegarar stærstu deilda Evrópu, sem og sigurvegarar Meistara- og Evrópudeildar.
Annar styrkleikaflokkur verður sterkur einnig og gæti innihaldið lið á borð við Real Madrid.
Í fjórða styrkleikaflokki eru lökustu liðin en þó engir aukvissar. Lið eins og Marseille gætu ratað þangað.
Breska götublaðið The Sun setti að gamni saman dauðariðil – jafnvel martraðarriðil – fyrir Arsenal í Meistaradeildinni í haust.