Það er nokkuð ljóst að Manchester United mun næla sér í framherja í sumar. Nokkur nöfn koma til greina.
Félagið hefur í raun ekki leyst af Cristiano Ronaldo sem fór frá Old Trafford fyrir áramót. Það var reynt að brúa bilið með því að fá Wout Weghorst á láni frá Burnley. Hann mun þó seint kallast framtíðarlausn liðsins.
Harry Kane hjá Tottenham og Victor Osimhen hjá Napoli hafa verið sterklega orðaðir við United. Þá hefur Randal Kolo Muani hjá Frankfurt einnig verið nefndur til sögunnar.
Þeir eru þó ekki þeir einu. Samkvæmt Mirror hefur United augastað á Goncalo Ramos hjá Benfica.
Ramos er 21 árs gamall og heillaði með portúgalska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Katar. Þá hefur hann skorað 25 mörk í 44 leikjum í öllum keppnum á þessari leiktíð.
Mirror segir að Ramos gæti kostað United allt frá 70 til 100 milljónir punda.