Sjálfsmark frá Fylki tryggði Breiðablik nauman sigur þegar Íslandsmeistararnir fóru í heimsókn í Árbæ í kvöld. Um var að ræða síðasta leikinn í sjöttu umferð Bestu deildarinnar.
Blikar komust yfir eftir 26 mínútna leik þegar Klæmint Olsen skoraði fyrir Blika. Var þetta fyrsti leikur hans í byrjunarliði.
Jason Daði Svanþórsson átti þá góða fyrirgjöf og Klæmint lúrði á fjærstöng og skoraði. Ólafur Karl Finsen jafnaði svo skömmu síðar fyrir heimamenn en fór síðan meiddur af velli.
Leikurinn í síðari hálfleik var jafn og tókst Blikum ekki að skapa sér mikið af færum. Það var svo eftir hornspyrnu á 85 mínútu sem Nikulás Val Gunnarsson skallaði knöttinn í eigið net.
Damir Muminovic fagnaði mikið og taldi sig eiga markið en í endursýningum sást að Nikulás skallaði boltann í netið. Blikar með tólf stig eftir sex leiki og eru sex stigum á eftir toppliði Víkings. Fylkir er í fallsæti ásamt Stjörnunni en bæði lið eru með þrjú stig.