Thomas Frank, danskur knattspyrnustjóri Brentford í ensku úrvalsdeildinni, er bersýnilega hrifinn af fatnaðinum frá íslenska fyrirtækinu 66°Norður. Hann klæddist fötum frá þeim í síðasta leik.
Frank var klæddur í Dyngju vesti frá 66°Norður á hliðarlínunni þar sem hann stýrði Brentford gegn Aston Villa um síðastliðna helgi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Frank klæðist fatnaði frá 66°Norður og hann er greinilega hrifinn af fatnaðinum frá íslenska fataframleiðandanum.
Brentford mætir Chelsea í kvöld. Frank hefur einmitt verið orðaður við stjórastöðuna hjá síðarnefnda félaginu eftir að hafa náð eftirtektarverðum árangri með Brentford. Kom hann með liðið upp í úrvalsdeild og hefur Daninn fest það í sessi á skömmum tíma.