Stuðningsmenn Manchester United eru allt annað en sáttir með Casemiro eftir tap liðsins gegn Sevilla í Evrópudeildinni í gær.
United féll úr leik í Evrópudeildinni í gær af hendi Sevilla. Fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum lauk með 2-2 jafntefli í Manchester en Spánverjarnir unnu heimaleik sinn í gær 3-0.
Casemiro átti skelfilegan leik, líkt og nokkrir aðrir í liði United.
Stuðningsmenn United urðu svo brjálaðir þar sem Casemiro var skælbrosandi úti á velli eftir tapið í gær.
„Af hverju í andskotanum er Casemiro brosandi? Það er ekkert til að brosa yfir,“ skrifar einn stuðningsmaður,
Margar aðrar færslur eru á þennan veg en sumir ganga mun lengra og segja jafnvel að taka eigi Casemiro úr liðinu.
Brasilíski miðjumaðurinn gekk í raðir United frá Real Madrid fyrir þessa leiktíð og hefur heillað þó svo að frammistaðan í gær hafi ekki verið upp á marga fiska.