Jurgen Klopp stjóri Liverpool telur að Darwin Nunez verði mikið mun betri leikmaður fyrir félagið ef hann bætir ensku kunnáttu sína.
Framherjinn frá Úrúgvæ er á sínu fyrsta tímabili á Anfield en undanfarnar vikur hefur hann setið mikið á bekknum.
„Darwin er leikmaður með öðruvísi hæfileika en aðrir sem er gott. Það er erfitt að eiga við hann, hann mun skora mikið fyrir okkur. Hann er enn að aðlagast,“ segir Klopp.
Klopp telur að ef Darin nær tökum á ensku tungumáli þá muni það hjálpa honum mikið.
„Enskan hans er ekki frábær en við erum að leggja gríðarlega vinnu í það. Það er ekki einfalt að vera á fyrsta tímabilinu og það gengur erfiðlega. Framherji blómstrar ekki þegar allt liðið er í vandræðum.“
„Hann hefur verið meiddur og í leikbanni. Hann er maður sem við treystum á inn í framtíðina, ég skil að hann vilji spila meira.“
Darwin hefur skorað 13 mörk á tímabilinu en Klopp segir að Darwin hafi mætti á skrifstofu sína í vikunni og rætt bekkjarsetuna sem hann hefur þolað undanfarið.
„Hann kom og ræddi við mig, það er það sem á að gera. Við eigum fimm leiki á næstu tveimur vikum og Darwin mun byrja leiki þar.“