Åge Hareide, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins, er staddur á leik Stjörnunnar og ÍBV í Mjólkurbikar karla í kvöld.
Leikurinn hófst klukkan 17:30 í Garðabænum. Um eina efstu deildarslaginn í 32-liða úrslitum er að ræða.
Hareide var kynntur til leiks á fréttamannafundi í Laugardal í gær. Það var afar létt yfir Norðmanninum, sem er spenntur fyrir komandi verkefni með íslenska landsliðið.
Hareide hefur greinilega áhuga á að kynna sér fótboltann hér á landi. Á fundinum í gær sagðist hann hafa horft á leik meistara meistaranna í kvennaflokki á milli Vals og Stjörnunnar og í kvöld er hann mættur á völlinn í Garðabænum.
„Það er gott að vera hér. Fólkið hér í sambandinu er vinalegt. Þetta er gott samstarfsfólk og allir vilja það besta fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Hareide meðal annars í samtali við 433.is eftir fundinn í gær.