Samkvæmt enska götublaðinu Daily Express er Jurrien Timber varnarmaður Ajax vongóður um að yfirgefa félagið í sumar og ganga í raðir Liverpool.
Manchester United vildi kaupa Timber síðasta sumar en Timber ákvað að vera um kyrrt í Amsterdam.
Nú segir Express að Timber sé vongóður um að ganga í raðir Liverpool í sumar og að kappinn sé byrjaður að skoða hús í Bítlaborginni.
Timber er öflugur varnarmaður en Wesley Sneijder fyrrum leikmaður Ajax óttast um að enska úrvalsdeildin henti ekki Timber.
Hann telur að Timber muni eiga í vandræðum með kraftinn sem er í enska boltanum og að Timber myndi tapa öllum skallaboltanum.
Búist er við að Jurgen Klopp styrki bæði miðsvæði sitt og varnarlínu í sumar til að stokka upp hópinn hjá sér.