Didier Drogba fyrrum framherji Chelsea segist ekki þekkja sitt ástkæra félag lengur, ekkert hefur gengið hjá Chelsea eftir að Todd Boehly eignaðist félagið síðasta sumar.
Boehly og eigandahópur hans hefur fjárfest um 600 milljónum punda í leikmenn en það hefur hingað til engu skilað. Chelsea datt úr leik gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í gær og situr um miðja deild á Englandi.
„Ég vissi að þetta félag hefði ákveðinn klassa þegar Abramovich átti félagið, núna vantar það. Það er erfitt fyrir mig að segja hvaða leikmenn á að losa,“ sagði Drogba.
„Ég þekki ekki félagið mitt, þetta er ekki sama félagið. Það er nýr eigandi og ný hugmyndafræði.“
„Að sjálfsögðu getum við borið þetta saman við Abramovich tímann þar sem mikið af leikmönnum komu inn, en þar voru teknar góðar ákvarðanir.“
Drogba er goðsögn í sögu Chelsea en Roman Abramovich keypti hann til félagsins og bjó til afar sigursælt félag Chelsea.
„Það komu inn leikmenn eins og Petr Cech, Andriy Shevchenko, Hernan Crespo, Micheal Essien, Didier Drogba, Florent Malouda og ég gæti haldið áfram. Þetta var gert til að vinna titla.“
„Hugmyndafræðin núna er öðruvísi, það á að veðja á unga leikmenn. En búningsklefi með yfir 30 leikmenn eru erfiður fyrir stjóra.“
„Það vantar leiðtoga með karakter, þú þarft leikmenn sem taka yfir leikinn og taka ábyrgð. Þú þarft leikmann sem býr til læti á vellinum.“