Dimitar Berbatov, fyrrum framherji Manchester United, segir að sitt gamla félag eigi ekki að sætta sig við neitt annað en að vera á toppnum þó tímarnir séu breyttir.
Búlgarinn raðaði inn mörkum á gullaldartíma United undir stjórn Sir Alex Ferguson.
„Er ég klikkaður? Í mínum huga á United að vera að berjast um efsta sætið eins og áður fyrr,“ segir Berbatov.
„Auðvitað hafa tímarnir breyst. En United á ekki að líta á þetta sem árangur. Þeir eiga að berjast um stóru titlana aftur og aftur.
Þegar ég ræði við fólk um tíma minn hjá United nota ég alltaf orðið einbeiting. Það er orðið sem Sir Alex Ferguson notaði við okkur áður en við fórum út á völlinn.“
Berbato segir að menn verði að halda einbeitingu svo það tapi ekki niður forskoti í leikjum eins og gegn Sevilla í síðustu viku.
„Þetta er stundum vandamál í dag. Skortur á einbeitingu þegar þú ert 2-0 yfir. Þú heldur að leikurinn sé búinn en svo er ekki, sérstaklega ekki þegar þú spilar við lið eins og Sevilla.“