Åge Hareide ,nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardal í dag. Hann var spurður út í málefni Gylfa Þórs Sigurðssonar .
Hareide tók við starfinu á föstudag, en sama dag var tilkynnt að Gylfi væri laus allra mála.
„Í fyrsta lagi er gott fyrir hann að málinu sé lokið. Ég vorkenndi honum mikið. Ég hef hitt hann og hann er góður náungi, frábær fótboltamaður,“ sagði Hareide um Gylfa í dag.
Hareide segir að ef Gylfi finnur sitt gamla form eigi hann góðan möguleika á að snúa aftur í íslenska landsliðið.
„Hann verður að ákveða hvort hann vilji spila fótbolta aftur. Ef hann gerir það verður hann í mínum plönum.“
„Þetta hafa verið tvö ár af helvíti fyrir hann,“ sagði Hareide að lokum um stöðu Gylfa.
Fyrsta verkefni Hareide með Ísland verður í undankeppni EM 2024 gegn Slóvakíu og Portúgal í júní.