Albert Guðmundsson verður í næsta landsliðshópi Íslands.
Þetta sagði Age Hareide, nýr landsliðsþjálfari, á sínum fyrsta blaðamannafundi í starfi í dag.
„Ég hef séð hann spila fyrir AZ Alkmaar og Genoa. Hann er góður leikmaður. Hann verður í leikmannahópnum,“ sagði Hareide.
Þetta eru ansi stór tíðindi. Albert hefur engan veginn verið í áætlunum landsliðsins undanfarið undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.
Arnar var óánægður með hugarfar Alberts og taldi hann ekki róa í sömu átt og íslenska liðið. Olli deila þeirra miklu fjaðrafoki.
Nú virðist staða hans gjörbreytt, ef tekið er mið af ummælum Hareide.
Albert er leikmaður ítalska félagsins Genoa. Þar hefur hann heillað. Nú fær hann tækifæri til að láta ljós sitt skína í íslenska landsliðsbúningnum.