Íslenskur toppfótbolti hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að hafa fundað með forráðaaðilum úr Bestu deild kvenna í dag.
Gustað hefur síðustu daga og aðilar úr kvennaboltanum hafa harðlega gagnrýnt framgöngu ÍTF fyrir Bestu deild kvenna í sumar.
Auglýsing fyrir deildinni hafði karlmenn í forgrunni og þá voru leikmenn boðaðir í myndatöku í dag, sama dag og leikur meistara meistaranna fer fram.
Yfirlýsing ÍTF
Stjórn ÍTF fundaði nú í dag með forráðaaðilum úr Bestu deild kvenna þar sem rætt var opinskátt um markaðssetningu deildarinnar, markaðsefni og ýmislegt það er viðkemur deildinni.
Fundurinn var afar gagnlegur, farið var yfir málefni Bestu deilda kvenna sem hafa verið til umræðu síðustu daga, fyrirspurnum svarað og boðleiðir skýrðar. Almennt var góð umræða um hvað má betur gera og fundarmenn sammála um að það sé hagur allra að taka til greina réttmæta gagnrýni sem komið hefur fram.
Sameinuð munum við gera komandi sumar að jákvæðri og skemmtilegri upplifun allra sem koma að þessari einstöku og fallegu íþrótt, knattspyrnunni.