Inter hefur ekki áhuga á að hafa Romelu Lukaku hjá sér annað tímabil. Þetta herma heimildir ítalska miðilsins Gazzetta dello Sport.
Belgíski framherjinn er á láni hjá Inter frá Chelsea en hefur engan veginn heillað líkt og hann gerði áður í Mílanó.
Lukaku var keyptur til Chelsea á um 100 milljónir punda frá Inter sumarið 2021. Þá hafði hann raðað inn mörkum fyrir ítalska liðið.
Kappinn stóð hins vegar engan veginn undir verðmiðanum á Brúnni og var sendur til Inter á láni.
Þar vonaðist Lukaku til að finna fjöl sína en það hefur ekki tekist.
Inter hefur því ekki áhuga á að hafa hann áfram.
Það verður því áhugavert að sjá hvað verður um Lukaku því óljóst er hvort hann eigi einhverja framtíð hjá Chelsea.
Hins vegar er talið að Inter snúi sér að mönnum á borð við Roberto Firmino og Marcus Thuram, en þeir verða samningslausir í sumar.