Victor Osimhen hefur verið sterklega orðaður við stórlið í Evrópu en ný ummæli hans gefa í skyn að hann gæti verið áfram hjá Napoli í sumar.
Nígerski framherjinn hefur verið ótrúlegur með Napoli á leiktíðinni. Kappinn hefur skorað 25 mörk í öllum keppnum, en lið hans er á barmi þess að tryggja sér Ítalíumeistaratitilinn.
Osimhen hefur hvað mest verið orðaður við Manchester United.
„Ég er nú þegar hjá frábæru félagi sem hjálpar mér að bæta mig á hverjum degi,“ segir Osimhen, spurður út í framtíð sína.
„Ég er nú þegar hjá einu af stóru félögunum og gæti ekki beðið um meira. Áfram Napoli, alltaf!“
Fyrir skömmu sagði Osimhen að draumur hans væri að spila í ensku úrvalsdeildinni. Það er því spurning hvað á að lesa í ný ummæli hans.