Bukayo Saka bað stuðningsmenn Arsenal afsökunar eftir leik liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Skytturnar misstu af stigum í gær aðra umferðina í röð. Liðið gerði jafntefli við West Ham, 2-2 og tapaði niður tveggja marka forskoti aðra leikvikuna í röð.
Arsenal er enn með 4 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið í öðru sæti, Manchester City, á hins vegar leik til góða.
Í leiknum í gær klikkaði Saka á vítaspyrnu í stöðunni 2-1 fyrir Arsenal, þar sem hann hefði getað klárað leikinn.
„Sama hver útkoman er veit ég að ég ber ábyrgð. Fyrirgefið Arsenal-stuðningsmenn. Ég mun gera allt til að bæta upp fyrir þetta,“ skrifaði Saka á Instagram.
Englendingurinn ungi hefur verið hvað besti leikmaður Arsenal undanfarin ár. Yfirgnæfandi meirihluti svara sem leikmaðurinn fékk voru í jákvæðum dúr, að Saka ætti einfaldlega að setja hausinn upp og halda áfram.
Næsti leikur Arsenal er gegn Southampton á föstudag. Fer hann fram á Emirates-vellinum.