Åge Hareide, nýr landsliðsþjálfari Íslands, viðurkennir að hann eigi erfitt með að hætta afskiptum af knattspyrnunni. Hann gat ekki hafnað því að þjálfa íslenska karlalandsliðið.
Fyrir helgi var það staðfest að Hareide yrði næsti landsliðsþjálfari. Hann tekur við af Arnari Þór Viðarssyni.
Hareide var síðast við stjórnvölin hjá Malmö í fyrra og átti það að vera hans síðasta starf, en hann er 69 ára gamall.
„Ég var búinn að láta fjölskylduna vita að ef landsliðsþjálfarastörf væru í boði gæti það heillað. Það var samt ekki mikið (sem heillaði). Ég fékk fjölda tilboða frá Afríku, sem og annars staðar að, en það heillaði ekki,“ segir Hareide við Verdens Gang í heimalandinu Noregi.
Þó svo að Hareide njóti þess að taka því rólega nú á efri árum togar fótboltinn í hann.
„Maður á hversdags líf sem er frábært en fyrir mig, einhvern sem hefur starfað svo lengi í fótbolta, saknar maður hans. Maður saknar þess að gera það sem maður hefur alltaf gert. Fyrst hlakkar maður til þess að vera hættur að vinna en svo hugsar þú: Andskotinn, það væri gott að hafa eitthvað að gera.
Maður ferðast með liðinu, er með ungum og metnaðarfullum leikmönnum sem halda manni ungum. Þá helst maður sjálfur heilbrigðari á allan hátt.“