fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
433Sport

Mark Haslam, lögmaður Gylfa Þórs, ræðir málið í einkaviðtali – „Hann var bæði glaður og þetta var mikill léttir fyrir hann“

Hörður Snævar Jónsson
Laugardaginn 15. apríl 2023 09:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mark Haslam, lögmaður Gylfa Þórs Sigurðssonar í Bretlandi, segir rannsókn lögreglu hafa tekið alltof langan tíma. Gylfi Þór var í fyrradag laus allra mála eftir tæplega tveggja ára rannsókn á meintu kynferðisbroti hans gegn ólögráða einstaklingi.

Gylfi var handtekinn á heimili sínu ytra þann 16. júlí árið 2021. Hann hefur frá þeim tíma verið laus gegn tryggingu en verið í farbanni á Englandi. Það var svo í fyrradag sem Gylfi fékk fréttirnar um að hann væri laus allra mála, að ekki yrði ákært í málinu eftir langa rannsókn.

Gylfi getur nú loks yfirgefið Bretland. Haslam er afar virtur lögmaður í Bretlandi og hefur sérhæft sig í almennum sakamálavörnum frá því að hann öðlaðist réttindi sín árið 1981.

„Hann var bæði glaður og þetta var mikill léttir fyrir hann,“ segir Haslman í einkaviðtali við 433.is, en hann vinnur í London þar sem Gylfi hefur verið búsettur mest allan tímann frá því að málið kom upp.

Gylfi hefur á þessum tíma ekki spilað fótbolta, Everton kaus að setja hann til hliðar á meðan rannsókn málsins var í gangi. Samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið rann svo út sumarið 2022.

Mjög ánægðir með niðurstöðuna:

Mark gagnrýnir yfirvöld í Bretlandi fyrir langan rannsóknartíma og segir að á þeim tíma hafi Gylfi misst atvinnu sína. Hann kveðst hissa á því að málið hafi tekið allan þennan tíma þegar niðurstaðan er sú að ekki voru næg sönnunargögn til að leggja fram ákæru.

„Ég vann fyrir Gylfa í gegnum þetta mál sem lögmaður hans. Þetta var mjög langur tími og flókið mál. Þetta var ítarleg rannsókn af hálfu lögreglunnar og lögfræðinga saksóknara. Eftir mjög langan tíma, 637 daga, sem Gylfi hefur verið laus gegn tryggingu en undir mjög ströngum reglum, þá er niðurstaðan sú að það eru ekki einu sinni næg sönnunargögn til að ákæra hann. Við erum mjög ánægðir með þessi málalok en verulega svekktir yfir því að þetta hafi tekið allan þennan tíma. Það er búið að valda honum gríðarlegum skaða á þessum tíma og að lokum er hann hreinsaður af öllu,“ segir Haslam.

GettyImages

Haslam segir að málið hafi verið erfitt fyrir Gylfa að ganga í gegnum, hann hafi verið undir mjög miklu álagi. „Þetta mál hefur verið gríðarlega erfitt fyrir Gylfa enda hefur hann verið undir mikilli pressu á meðan þessu stóð,“ segir Haslam.

Hann segir að langur rannsóknartími málsins hafi verið óþarfur. „Mín persónulega skoðun er sú að þessi langi tími sem rannsóknin tók var óþarfur, það hefði verið hægt að klára þetta mál miklu fyrr.“

Getur ekki tjáð sig um skaðamótamál

Samkvæmt breskum fjölmiðlum hefur Gylfi alltaf haldið fram sakleysi sínu í málinu. Mark er þó í þeirri stöðu að geta ekki rætt slíka hluti. „Ég get ekki tjáð mig um þetta efni. Það eina sem ég get sagt er að ég er glaður að Gylfi var hreinsaður af öllu,“ segir Haslam.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort Gylfi fari í skaðabótamál við yfirvöld í Bretlandi. Málið hefur valdið honum miklu fjárhagslegu tjóni. „Ég get ekki tjáð mig um það heldur,“ segir Haslam þegar hann er spurður að því hvort hann og Gylfi hafi rætt það að höfða slíkt mál.

Vonar að Gylfi spili fótbolta aftur

Haslam segir að tvö ár frá atvinnumennsku í fótbolta sé langur tími, hann vonar hins vegar að hinn 33 ára gamli Gylfi snúi aftur á knattspyrnuvöllinn innan tíðar.

„Þetta er mjög langur tími sem hann hefur ekki getað spilað fótbolta. Í ljósi niðurstöðu málsins þá vona ég að hann geti fundið leiðina aftur inn í leikinn. Það er enginn ástæða fyrir því að hann ætti ekki að geta það,“ segir Haslam.

Haslam segir að Gylfi geti nú farið frá Bretlandi en hann segir málið hafa reynt verulega á alla, bæði Gylfa og fjölskyldu hans. Hann segir mikið af röngum upplýsingum hafa verið lekið til fjölmiðla.

„Hann getur yfirgefið Bretland núna, þetta hefur verið mjög erfiður tími fyrir hann og fjölskylduna. Sá tími hefur verið gerður erfiðari með miklu af ónákvæmum upplýsingum sem gefnar voru fjölmiðlum og settar í loftið,“ segir Haslam.

Gylfi Þór og Alexandra Helga eiginkona hans / GettyImages

Að endingu segir Haslam að hann fagni þessari niðurstöðu. „Persónulega og sem lögmaður er ég mjög ánægður með niðurstöðuna,“ segir Haslam í einkaviðtali við 433.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 dögum

Arteta spurður að því hvort hann ætli að bregðast við áfallinu á leikmannamarkaðnum

Arteta spurður að því hvort hann ætli að bregðast við áfallinu á leikmannamarkaðnum
433Sport
Fyrir 2 dögum

Róbert Frosti til Póllands?

Róbert Frosti til Póllands?