Sævar Jónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Loftorku lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 7. apríl sl., 73 ára að aldri, í faðmi fjölskyldu sinnar. Frá andláti hans er greint í Morgunblaðinu í dag.
Sævar var afar virkur í starfinu hjá Stjörnunni í Garðabæ og hafði sýnt ýmsum störfum fyrir félagið. Hann var meðal annars í aðalstjórn, var í byggingarnefnd Stjörnuheimilisins og vallarstjórn knattspyrnuvallanna.
Sævar kom að ýmsum stórum verkefnum sem Stjarnan stóð í og vann mikið og gott sjálfboðastarf fyrir félagið.
Sævars var minnst með mínútuþögn fyrir leik Stjörnunnar og Víkings í Bestu deild karla um síðustu helgi og báru leikmenn Stjörnunnar sorgarbönd í leiknum.
Útför Sævars verður frá Vídalínskirkju í Garðabæ 24. apríl kl. 13.