Það er útlit fyrir að Age Hareide verði næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Norskir fjölmiðlar sögðu frá þessu í gær og er búist við því að Hareide verði kynntur til leiks sem þjálfari Íslands í dag. Um er að ræða reynslu mikinn þjálfara sem hefur áður náð frábærum árangri, bæði í félagsliða- og landsliðsbolta.
Age Fridtjof Hareide fæddist í norska bænum Hareid árið 1953. Hann sneri sér fljótt að knattspyrnunni og fór inn í barna- og unglingastarf Hødd. Leiðin lá svo upp á við. Hann braut sér leið inn í aðallið félagsins og árið 1976 fékk stórlið Molde hann til liðs við sig.
Hareide var svo á 28. aldursári árið 1981 þegar enska félagið Manchester City keypti hann. Kaupverðið nam þá um 10 þúsund pundum. Varnarmaðurinn öflugi, sem lék gjarnan sem ‘sweeper’, varð um leið fyrsti Norðmaðurinn hjá City. Áhugavert nokk er að nýjasti Norðmaður félagsins, stórstjarnan Erling Braut Haaland, var einnig hjá Molde áður en hann fór til City. Framherjinn skæði stoppaði að vísu hjá RB Salzburg og Borussia Dortmund í millitíðinni. Faðir Erling Braut, Alf Inge Haaland, lék auðvitað líka með City svo það má segja að Hareide hafi rutt brautina fyir Norðmenn hjá félaginu.
Hareide tókst þó ekki að festa sig í sessi hjá City á tveimur tímabilum. Hann lék aðeins 24 leiki fyrir félagið og síðustu mánuðina í bláa hluta Manchester-borgar æfði hann og spilaði með varaliðinu. Miðvörðurinn skipti svo yfir til Norwich City í júlí 1983.
Hjá Norwich gekk Hareide betur. Hann var þar í tvö tímabil líkt og hjá City en spilaði 40 leiki. Varnarmaðurinn skoraði meira að segja tvö mörk á tíma sínum með Kanarífuglunum. Á tíma sínum hjá Norwich leigði Hareide íbúð Martin O’Neill, sem í dag er knattspyrnustjóri líkt og Hareide og hefur þjálfað nokkur lið í ensku úrvalsdeildinni. Þeir þekktust frá tíma saman hjá Manchester City. O’Neill yfirgaf Norwich fyrir Notts County og leigði Hareide íbúðina sína.
Þeir félagar eru enn miklir mátar. Það sást hvað best þegar þeir áttust við í umspilsleik fyrir HM 2018. Hareide var þá landsliðsþjálfari Dana en O’Neill var með írska landsliðið. Danir höfðu betur og síðar sagði Hareide frá því að hann hafi nánast verið með samviskubit yfir því að vinna O’Neill.
„Ég hefði getað sigrað hvern sem er í heiminum en það þurfti að vera hann. Mig langaði ekki að það væri hann. Mig langaði ekki að þetta myndi koma fyrir hann,“ sagði Hareide á sínum tíma.
„Hann er góður maður og hefur alltaf verið góður við mig. Ég lærði mikið af honum sem leikmanni. Þegar ég þurfti að eiga í samskiptum við hann eftir ferilinn var hann alltaf góður við mig. Eins og þegar ég var þjálfari norska landsliðsins og hann var með John Carew (norskan landsliðsmann) í sínum röðum hjá Aston Villa.“
Eftir tímann hjá Norwich sneri Hareide aftur heim til Molde, þar sem knattspyrnuferlinum lauk. Kappinn var 34 ára gamall árið 1987 þegar hann lagði skóna á hilluna frægu. Á knattspyrnuferlinum afrekaði Hareide það að leika 50 A-landsleiki fyrir hönd Noregs á níu ára tímabili.
Hareide tók sér hins vegar enga pásu frá fótbolta og hóf að þjálfa hjá Molde. Hann var raunar spilandi þjálfari undir restina hjá félaginu. Hann tók svo við sem aðalþjálfari 1990. Hareide stýrði Molde um tvö skeið frá 1990 til 1997. Honum tókst að landa norska bikarmeistaratitlinum árið 1994.
Árangur Hareide á þessum tíma var eftirtektarverður. Hann var orðaður við endurkomu til Manchester City um miðjan tíunda áratuginn. Það stóð þó og féll með því hvort að norsku milljarðamæringunum Kjell Inge Røkke and Bjørn Rune Gjelsten tækist að kaupa félagið. Það varð aldrei af því.
Leið Hareide lá samt sem áður út fyrir landsteina Noregs og til nágrannaríkisins Svíþjóðar. Þar náði Hareide glæsilegum árangri, varð til að mynda Svíþjóðarmeistari 1999.
Hann hélt til Kaupmannahafnar eftir þetta og stýrði Bröndby. Því næst tók Hareide við Rosenborg og vann tvöfalt, deild og bikar. Þetta varð til þess að hann fékk loks stóra starfið, starf norska landsliðsþjálfarans.
Hareide var með norska landsliðið í fimm ár og náði fínum árangri, án þess þó að koma liðinu á stórmót. Undir stjórn Hareide var norska liðið með 41% sigurhlutfall.
Við tók smá flakk á milli félagsliða en Hareide kom sér aftur almennilega á kortið þegar hann stýrði Malmö tímabilið 2014-2015. Þar vann hann deild og bikar á fyrra tímabilinu sínu og var valinn þjálfari ársins. Með Malmö á þessum tíma lék meðal annars Kári Árnason. Hareide var án efa hrifinn af Kára því hann gerði hann að varafyrirliða fljótlega eftir komu Íslendingsins.
Hareide var mættur aftur í landsliðsboltann vorið 2016. Þá tók hann við danska landsliðinu. Þar var stærsta afrek Norðmannsins að koma Danmörku á HM 2018, þar sem liðið fór í 16-liða úrslit.
Eftir fjögur ár í Danmörku hélt Hareide til heimalandsins á ný og tók aftur við Rosenborg. Hans síðasta starf var svo hjá Malmö í fyrra. Þá tók hann við á nýjan leik eftir afar dapurt gengi Milosar Milojevic.
Hareide er af gamla skólanum og kom það hvað best í ljós vorið 2018 þegar hann ákvað að skjóta á Paul Pogba fyrir HM. „Gegn Manchester City þá var hárið hans blátt og hvítt, kannski verður það rautt og hvítt gegn okkur. Er hárið það eina sem hann hugsar um?“ spurði hann þá.
Miðað við fortíðina, þá sérstaklega út frá síðasta starfi Hareide sem landsliðsþjálfari er hann var með Danmörku, mun Hareide ekki flækja hlutina þegar kemur að leiktstíl með íslenska landsliðinu. Hann vill spila 4-3-3, spila einfaldan en þó árangursríkan fótbolta. Lið hans eru kraftmikil og gefa ekkert eftir. Hann ætti því að henta íslenska landsliðinu ansi vel.