FC Bayern ætlar sér að láta á það reyna að fá Harry Kane framherja Tottenham í sumar. Það er enska blaðið The Independent sem heldur þessu fram.
Bayern hefur áhuga á því að fá enska framherjann sem mun í sumar aðeins eiga eitt ár eftir af samningi sínum.
Óvissa er í kringum framtíð Kane og þá er algjörlega óvíst um það hver mun stýra Tottenham á næstu leiktíð, félagið er í þjálfaraleit.
Kane er 29 ára gamall og hefur alla tíð leikið með Tottenham en hann er á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Kane hefur einnig verið orðaður við Manchester United en hann er markahæsti leikmaður í sögu Tottenham og enska landsliðsins.
Bayern vantar framherja og er búist við að félagið láti til skara skríða á markaðnum í sumar, er Kane sagður efstur á blaði Thomas Tuchel.