Dani Alves mun mæta í réttarsal á ný í næstu viku eftir að hafa beðið um leyfi til að koma fram með nýja yfirlýsingu í tengslum við meint kynferðisbrot aðfaranótt Nýársdags.
Knattspyrnumaðurinn var handtekinn þann 20. janúar, grunaður um kynferðisbrot gegn konu á skemmtistað í upphafi árs.
Alves hefur síðan setið inni, en beiðni hans um að vera laus gegn tryggingu fram að réttarhöldum var hafnað af ótta við að hann héldi til heimalandsins Brasilíu og hlyti þar vernd.
Hinn 39 ára gamli Alves hefur beðið um að fá að koma með nýja yfirlýsingu vegna málsins og fær hann að koma fyrir rétt í næstu viku. Hann ætlar að skýra nánar frá sinni hlið kvöldið sem meint brot átti sér stað og breyta fyrrum lýsingu sinni að einhverju leyti.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Alves gerir það. Upphaflega sagði kappinn að hann hafi aldrei hitt þá 23 ára gömlu konu sem sakar hann um kynferðisbrot. Hann breytti þeirri frásögn svo í að hann hafi stundað kynlíf með henni með samþykki.
Alves sagði að hann hafi ekki sagt satt til að byrja með þar sem hann var ekki tilbúinn að viðurkenna fyrir eiginkonu sinni, Joönu Sanz, að hann hafi haldið framhjá.
Sanz virtist einmitt binda enda á átta ára samband þeirra í síðasta mánuði með færslu á Instagram. Það gerði hún skömmu eftir að hafa heimsótt Alves í fangelsi.
Fyrrverandi eiginkona Alves og móðir tveggja barna hans, Dinorah Santana, hefur hins vegar gefið út að hún standi með honum.