Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var að vonum sáttur með 2-1 sigur á Sviss í vináttulandsleik ytra í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir kom Íslandi yfir í dag áður en Sviss jafnaði. Sveindís Jane Jónsdóttir gerði svo sigurmarkið.
„Ég er mjög ánægður með að vinna. Ég er ánægður með margt í leiknum,“ segir Þorsteinn eftir leik.
„Það lá á okkur síðustu 7-8 mínúturnar en við leystum það og gerðum það vel. Heilt yfir var ég sáttur með margt. Það var margt jákvætt og við héldum betur í boltann.“
Ísland breytti um kerfi í dag og lék í 3-5-2.
„Ég vildi fjölga möguleikum sem við höfum. Það er svolítið langt síðan við ákváðum þetta og þegar æfingaleikirnir komu inn fannst okkur henta vel að spila svina á móti Sviss. Það er líka sterkt lið svo þetta var fínn leikur til að prófa þetta.“
Ísland gerði á dögunum jafntefli við Nýja-Sjáland. Nú er þessum landsliðsglugga lokið.
„Þetta var bara fínt. Þú vilt alltaf vinna alla leiki en mér fannst við ná að gera það sem við ætluðum að gera.“
Viðtalið í heild er hér að neðan.
🎙️Viðtal við Þorstein H. Halldórsson eftir sigurinn gegn Sviss.#dottir pic.twitter.com/LhDlUVGq2w
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) April 11, 2023