Íslenska kvennalandsliðið vann góðan útisigur á Sviss í vináttulandsleik í dag.
Fyrr í þessum landsleikjaglugga gerði Ísland 1-1 jafntefli við Nýja-Sjáland en í dag var komið að Sviss.
Liðin mættust í Zurich. Stelpurnar okkar byrjuðu betur og kom fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir liðinu í forystu á 18. mínútu. Miðvörðurinn var mættur fremst á völlinn og kláraði gott færi.
Heimakonur tóku hins vegar við sér þegar leið á fyrri hálfleikinn og á 39. mínútu jafnaði Seraina Piubel.
Staðan í hálfleik var jöfn.
Íslenska liðið fann hins vegar sigurmark í seinni hálfleik. Það gerði Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sviss tókst ekki að jafna þrátt fyrir nokkuð þunga pressu í lokin. Lokatölur urðu 2-1 fyrir Ísland.