Samir Nasri, fyrrum leikmaður Arsenal og Manchester City, segir að leikmenn fyrrnefnda liðsins hafi engan veginn höndlað það að mæta Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2009.
Um fyrsta tímabil Nasri með Arsenal var að ræða og fór liðið alla leið í undanúrslit. Þar var andstæðingurinn United og töpuðu Skytturnar samanlagt 4-1.
„Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá svona stemningu á Emirates-vellinum,“ segir Nasri.
„Þegar þú ferð inn í svona leik þar sem hrollur fer um þig allan heldur þú að þú sért að fara að eiga frábæran leik.
Svo skitum við í okkur. Við skitum í okkur og mættum frábærum Cristiano Ronaldo.“
United fór í úrslitaleikinn og tapaði þar 2-0 fyrir lærisveinum Pep Guardiola í Barcelona.
Nasri lagði skóna á hilluna árið 2020. Auk Arsenal og City lék hann fyrir lið á borð við West Ham og Marseille á ferlinum.