Það var létt yfir mönnum í setti Viaplay í kvöld þegar farið var yfir leikina í Meistaradeild Evrópu. Þar voru fyrrum landsliðsmennirnir Rúrik Gíslason og Kári Árnason sérfræðingar að vanda.
Rúrik hrósaði John Stones sem var frábær fyrir Manchester City í 3-0 sigri á Bayern Munchen í kvöld.
Hann sá þó fljótt eftir því. Kári tók til máls, en hann hafði áður farið í pirrurnar á öðrum í setti fyrir að lofsyngja miðverði.
„Ef þetta eru góðir leikmenn þá taka þeir ábyrgð á því sem þeir gera, annað en það sem bakverðir og sókndjarfir miðjumenn gera,“ sagði Kári og fékk ekki sérstakar undirtektir.
„Þetta er náttúrulega orðið verulega þreytt,“ sagði Rúrik léttur og hélt áfram.
„Bakverðir og sóknarmenn taka aldrei ábyrgð. Er það það sem þú ert að segja?
Talandi um að höndla ekki frægðina. Jesús.“