Folarin Balogun hefur komið mörgum á óvart á leiktíðinni og raðað inn mörkum fyrir Reims í Frakklandi. Englendingurinn ungi er þar á láni frá Arsenal.
Hinn 21 árs gamli Balogun kom upp í gegnum unglingastarf Arsenal og er samningsbundinn félaginu til 2025.
Hann fór hins vegar til Reims á láni fyrir þessa leiktíð í leit að meiri spiltíma. Það fékk hann heldur betur og hefur þakkað traustið. Balogun hefur skorað 19 mörk á leiktíðinni.
Balogun vill verða fastamaður hjá Arsenal en alls ekki er víst að það sé raunhæft. Hann gæti því horft í kringum sig í sumar.
AC Milan, Inter, Marseille og Monaco gætu öll barist um leikmanninn. Nú síðast var sagt frá því að RB Leipzig væri komið í kapphlaupið um hann.
Balogun hefur spilað fyrir yngri landslið Englands en er fæddur í Bandaríkjunum. Hann getur valið á milli þegar kemur að A-landsliði.