Sparkspekingurinn og Manchester United goðsögnin Gary Neville hefur skipt um skoðun sína á því hvaða lið enda í efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar og komast þar af leiðandi í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Hörð barátta er um Meistaradeildarsætin. Nokkuð ljóst er að Arsenal og Manchester City verða í efstu tveimur sætunum en þar á eftir koma Newcastle, Manchester United og Tottenham. Liverpool og Chelsea eru óvænt nokkuð langt frá pakkanum.
Neville hafði ekki trú á Newcastle en hefur breytt um skoðun eftir gott gengi þeirra undanfarið.
„Þvílík vika hjá Newcastle. Þeir vinna Manchester United og svo West Ham og Brentford úti. Að ná í níu stig úr þessum leikjum er frábært,“ segir Neville.
„Eftir að hafa horft náið á þá gegn Manchester United þar sem mér fannst þeir frábærir er ég viss um að þeir endi í topp fjórum því sjálfstraustið er í botni.“
Neville telur að hans menn í United fylgi Newcastle, Arsenal og City í Meistaradeildina.