Besta deild karla hefst í dag með heilli umferð og er eftirvæntingin mikil.
Leitað var til stuðningsmanna liðanna í deildinni og lagður fyrir þá spurningalisti.
Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, svaraði fyrir hönd stuðningsmanna Víkings R.
Hvernig líst þér á sumarið hjá þínu liði?
Mér leist mjög vel á það fyrir nokkrum vikum síðan en í ljósi meiðsla Kyle og hversu þunnskipaður hópurinn er fyrir þetta brjálaða álag fram undir lok maí er ég orðinn svolítið áhyggjufullur.
Hvernig finnst þér hafa gengið að styrkja leikmannahópinn?
Ekki nógu vel. Það eru aðeins tveir leikmenn komnir og þó ég muni aldrei rengja Arnar Gunnlaugsson í einu né neinu er ég aldrei sammála þeirri fullyrðingu að leikmenn sem eru að koma til baka úr meiðslum séu „nýir leikmenn.“
Hver er uppáhalds leikmaðurinn þinn í liðinu?
Það er unun að horfa á Viktor Örlyg þegar að hann er í stuði, annan eins fótboltaheila sér fólk varla í deildinni. En, svo dýrka ég líka leikmenn sem spila beinskeytt með olnbogana út og af krafti þannig ég hef mikið svægi fyrir Helga Guðjóns og Niko.
Ertu dugleg/ur að mæta á völlinn hjá þínu liði?
Mjög duglegur og hef alltaf verið. Ég sat í stúkunni þegar að hún var bara steypa eins og það sem var að gerast inn á vellinum.
Fyrir utan heimavöllinn hjá þínu félagi, hvar er skemmtilegast að fara á völlinn?
Það er alltaf klassi að mæta í Krikann. Það er svona eini alvöru leikvangurinn í deildinni (e. stadium)
Hvað finnst þér um fyrirkomulagið í Bestu deildinni sem var prófað í fyrsta sinn á síðustu leiktíð?
Það gekk illa upp vegna spennuleysis á toppi og botni en ég hlakka til að sjá þetta ef það er spenna í deildinni.
Hvaða lið verður Íslandsmeistari?
Ég er farinn að hallast að Val.