Besta deild karla hefst í dag með heilli umferð og er eftirvæntingin mikil.
Leitað var til stuðningsmanna liðanna í deildinni og lagður fyrir þá spurningalisti.
Fjölmiðla- og umboðsmaðurinn Þorkell Máni Pétursson svaraði fyrir hönd stuðningsmanna Stjörnunnar.
Hvernig líst þér á sumarið hjá þínu liði?
Mér líst bara nokkuð vel á þetta. Við erum með lið í sæti 4 til 8 sem er að mestu byggt á ungum og uppöldum leikmönnum. Þetta verður alltaf skemmtilegt sumar.
Hvernig finnst þér hafa gengið að styrkja leikmannahópinn?
Ég held að styrkingar hafi að mestu leiti verið vel heppnaðar.
Hver er uppáhalds leikmaðurinn þinn í liðinu?
Það er Leedsarinn hann Róbert Frosti. Hann getur samt verið verið vel pirrandi náungi líka.
Ertu duglegur að mæta á völlinn hjá þínu liði?
Já ég fer vanalega á alla leiki sem ég kemst á.
Fyrir utan heimavöllinn hjá þínu félagi, hvar er skemmtilegast að fara á völlinn?
Það er að fara til Keflavíkur. Þar er mér alltaf tekið eins og heimamanni. Enda eru Keflvíkingar allir algert toppfólk.
Hvað finnst þér um fyrirkomulagið í Bestu deildinni sem var prófað í fyrsta sinn á síðustu leiktíð?
Þetta fyrirkomulag er frábært og vonandi styttist í tvöfalda úrslitakeppni. Vantar samt hærri peningaverðlaun að vinna forsetabikarinn. Þarf meiri gulrót þar.
Hvaða lið verður Íslandsmeistari?
Verður algert slys ef Blikar verða ekki meistarar, besta liðið og bestu þjálfararnir. Verður samt meira spennandi.