Roman Abramovich, fyrrum eigandi Chelsea, gaf leikmönnum liðsins 50 þúsund pund í bónus eftir sigur á Arsenal í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2004.
Þetta segir Wayne Bridge, fyrrum leikmaður Chelsea, en Abramovich hafði keypt enska félagið ári fyrr.
Leikmennirnir áttu upphaflega að fá 25 þúsund pund fyrir sigurinn en Rússinn samþykkti að borga enn meira eftir beiðni frá Adrian Mutu, framherja liðsins.
Athygli vekur að leikmenn Chelsea fengu peningana afhenta í seðlum en ekki inn á bankareikning.
,,Ég skora ekki mörg mörk en andrúmsloftið í búningsklefanum eftir leik var ótrúlegt,“ sagði Bridge.
,,Roman Abramovich lét sjá sig og allir voru hoppandi og skoppandi. Adrian Mutu heimtaði að fá tvöfaldan bónus og hann svaraði: ‘gjörðu svo vel.’
,,Við fengum tvöfaldan bónus. Við höfðum nú þegar fengið nógu stóran bónus, við þurftum ekki á þessu að halda en hann gerði þetta. Það er ótrúlegt en satt.“