Jerome Rothen hefur skotið föstum skotum á Lionel Messi, leikmann Paris Saint-Germain, og ekki í fyrsta sinn.
Rothen hefur verið duglegur að gagnrýna Messi síðan hann kom til PSG frá Barcelona en sá fyrrnefndi lék lengi með félaginu.
Rothen segir að Messi noti alla sína frídaga í að heimsækja Barcelona, félagið sem hann lék fyrir til margra ára áður en hann kom til Frakklands.
,,Lionel Messi stendur fyrir fótbolta, hann er allt sem ég elska við íþróttina. Hann hefur skráð sig í sögubækurnar,“ sagði Rothen.
,,Hann er mögulega sá besti í sögunni en við erum mjög vonsviknir með hvað hann hefur gert undanfarin tvö tímabil. Við höfum upplifað neikvæða hluti.“
,,Um leið og hann fær frídag þá er hann farinn til Barcelona. Hann hefur aldrei vanist París eða því sem PSG stendur fyrir.“
,,Þetta er svo sannarlega ungt félag en er með sögu sem þarf að virða. Þú þarft að koma fram sem leikmaður París og hann hefur aldrei gert það og ég kenni honum sjálfum um.“