Sparkspekingurinn og Manchester United goðsögnin Gary Neville telur að Arsenal verði Englandsmeistari ef liðið vinnur Liverpool á Anfield á sunnudag.
Skytturnar eru með átta stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar. Síðarnefnda liðið á þó leik til góða.
Á sunnudag heimsækir Arsenal Anfield. „Ef Arsenal fer á Anfield og sigrar myndi ég klárlega segja að titilinn sé þeirra því sjálfstraustið sem hlýst af því er ótrúlegt. Ef þeir tapa verður titilbaráttan hins vegar galopin.
Sir Alex Ferguson sagði oft við okkur að ef þú átt útileik gegn Liverpool á þessum tíma árs og sigrar, sigrir þú deildina. Það reyndist oft rétt.“
Neville hefur ekki haft mikla trú á Arsenal þrátt fyrir frábært gengi á leiktíðinni en viðurkennir að liðið hafi komið honum mikið á óvart. Hann telur þó enn að City verði meistari.
„Fyrir 2-3 mánuðum taldi ég að Arsenal myndi enda 10-15 stigum á eftir Manchester City. Það verður auðvitað ekki svo. Nú er þetta 50/50.“
Neville telur að betra yrði fyrir ensku úrvalsdeildina að Arsenal vinni deildina en City þar sem síðarnefnda liðið hefur unnið hana fjórum sinnum af síðustu fimm tímabilum.
„Enginn hélt að Arsenal gæti unnið deildina. Þetta átti að vera á milli City og Liverpool. Ef Arsenal vinnur úrvalsdeildina undirstrikar það ástæðu þess að við elskum hana. Við viljum halda að þetta sé samkeppnishæf deild þar sem allir geta unnið alla.“