David Moyes, stjóri West Ham, viðurkennir að hann sé ekki að fara neitt ef hann fær einhverju ráðið um það.
Moyes ku vera valtur í sessi hjá West Ham en liðið tapaði 5-1 heima gegn Newcastle á dögunum og er í 15. sæti úrvalsdeildarinnar.
West Ham er með dýran og góðan leikmannahóp og kalla stuðningsmenn félagsins eftir því að Moyes verði rekinn.
Skotinn ætlar þó ekki að stíga til hliðar sjálfur og líkir starfi sínu við eiturlyf, eitthvað sem hann getur ekki lifað án.
,,Þetta er eins og eiturlyf. Ég þarf á þessu að halda. Hluti af því að vera knattspyrnustjóri er að þú vinnur ekki í hvert skipti,“ sagði Moyes.
,,Stundum þarftu að tapa og þú þarft að geta tekið því. Hins vegar, þegar þú tapar þá þarftu að vita hvernig á að koma sterkari til baka.“