Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, skrifaði í dag undir nýjan samning við Aftureldingu sem gildir út tímabilið 2024.
Aron Elí er vinstri bakvörður sem hefur verið algjör lykilmaður hjá Aftureldingu síðan hann kom til félagsins frá Val í febrúar árið 2020. Hinn 26 ára gamli Aron hefur skorað fimm mörk í 56 deildar og bikarleikjum með Aftureldingu og lagt upp fjölda marka.
Árið 2021 var Aron valinn knattspyrnumaður Aftureldingar. Undanfarin tvö tímabil hefur Aron farið til Bandaríkjanna í skóla í ágúst og misst af lokasprettinum í deildinni en hann er nú að ljúka námi sínu þar og mun leika allt tímabilið með Aftureldingu í Lengjudeildinni í sumar.
„Aron er mikill leiðtogi og er að fara inn í sitt þriðja tímabil sem fyrirliði Aftureldingar. Það eru mikil gleðitíðindi að Aron hafi framlengt samning sinn við Aftureldingu og spennandi verður að sjá hann taka næstu skref með liðinu í Lengjudeildinni í sumar,“ segir á vef Aftureldingar.