ÍSÍ hefur úthlutað úr Ferðasjóði íþróttafélaga styrkjum vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga vegna þátttöku í fyrirfram skilgreindum styrkhæfum mótum ársins 2022.
Að þessu sinni var úthlutað samtals 123,9 milljónum króna til 121 félags úr 21 íþróttahéraði, vegna 3.046 ferða í 23 íþróttagreinum. Heildarupphæð umsókna var 588.380.640,- en umsækjendur skrá einungis beinan ferðakostnað í umsóknir, ekki gistingu eða uppihald.
Styrkirnir eru greiddir út beint til viðkomandi íþrótta- og ungmennafélags, skv. umsóknum. Umsækjendur geta nú farið inn í umsókn sína í gegnum vefslóðina sem fylgdi stofnun umsóknarinnar og séð úthlutun styrkja pr. ferð. Fljótlega verður umsóknarsvæði sjóðsins opnað á ný fyrir umsóknir vegna ferða á yfirstandandi ári.