„Sá tímapunktur kemur einn daginn að ég verði þjálfari íslenska landsliðsins,“ segir Freyr Alexandersson þjálfari Lyngby í Danmörku við fjölmiðla þar í landi.
Nafn hans hefur verið nefnt við starfið núna en KSÍ ákvað á fimmtudag í síðustu viku að reka Arnar Þór Viðarsson úr starfi landsliðsþjálfara.
Freyr var aðstoðarmaður Erik Hamren allt til ársloka árið 2020 þegar Arnar Þór tók við. Viðræður áttu sér stað við Frey á þeim tíma um að taka ivð.
„Þetta er ekki eitthvað sem ég er að skoða núna og enginn frá KSÍ hefur haft samband við mig.“
Óvíst er í hvaða átt KSÍ fer þegar kemur að nýjum þjálfara, Rúnar Kristinsson hefur verið orðaður við starfið auk erlendra þjálfara.
„Ég vann lengi fyrir sambandið og þekki allt starfið, ég veit hvað þarf og ég veit að ég myndi henta þeim vel. Þau vita það líka.“
„Ég hef tjáð fólki það að ég komi einn daginn aftur en sá dagur er ekki núna.“
Lyngby situr í fallsæti í dönsku úrvalsdeildinni en um er að ræða annað tímabil liðsins sem Freyr er þjálfari liðsins. Hann kom liðinu upp í úrvalsdeild á fyrsta ári.