Eiður Smári Guðjohnsen fyrrum þjálfari FH og íslenska landsliðsins segir að það sé verulegt áhyggjuefni fyrir Manchester United hvesu illa liðið spilar án Casemiro í enska boltanum. Gengi United án miðjumannsins er ansi slakt.
Casemiro var í leikbanni þegar Manchester United fékk 2-0 skell gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær.
„Mikið áhyggjuefni, þetta er Manchester United. Eitt stærsta félag í heimi, að það skuli sjást svona stórt hlutverk þegar Casemiro er ekki á vellinum,“ sagði Eiður Smári á Símanum í gær.
Eiður er svo ekki hrifin af því hvað Wout Weghorst, framherji liðsins kemur með á borðið. Hann er á láni frá Burnley en þrátt fyrir dugnað skorar hann lítið sem ekkert af mörkum.
„Þetta er ekkert persónulegt gagnvart honum, Að þessi maður sé nían í Manchester United er óskiljanlegt.“
Gylfi Einarsson tók þá til máls hjá Símanum.
„Þetta er ekki komið hjá þeim. Vissulega yrði það algjör skita ef þeir myndu ekki ná þessu miðað við stöðuna sem þeir eru búnir að vera í undanfarnar vikur. Þeir mega ekki slaka mikið á svo það fari frá þeim,“ sagði Gylfi Einarsson en United situr í fjórða sæti deildarinnar eins og sakir standa. Það er síðasta sætið sem gefur Meistaradeildarsæti.