„Ég skil alveg þessa spá, þessi vetur hefur reynt á. Við erum búnir að missa fyrirliðann okkar og sterkan varnarmann í alvarleg meiðsli, í þokkabót höfum við verslað lítið,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings fyrir komandi tímabil í Bestu deild karla. Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings frá síðustu leiktíð var seldur í atvinnumennsku og Kyle Mclagan sleit krossband nú skömmu fyrir mót.
Arnar hafði vonast eftir því að þurfa lítið að hrókera liði sínu í sumar en Viktor Örlygur Arnarson gæti nú fengið nýtt hlutverk í vörninni. „Okkur langaði fyrir tímabilið að hrókera mönnum lítið, Viktor greyið. Ég segi alltaf Viktor greyið, ef hann fer í vörnina þá þarf að hrókera á miðjunni og þetta hefur áhrif út um allan völl. Það er búið að vera áskorun hvern einasta sumar, eftir 2021 þá fer öll vörnin og það var áskorun að smíða nýtt og nú er önnur áskorun. Við þurfum að endurhugsa okkar leikstíl mögulega, það segir sig sjálft þegar þú missir sterka íþróttamenn eins og Júlla og Kyle. Þú verður að fórna einhverju.“
Arnar segir að breyttur leikstíll gæti orðið áhugaverður. „Þá er ég að tala um að tóna niður pressuna og halda betur í boltanum, stjórna leikjum á annan hátt. Þú mátt samt ekki kollvarpa öllu, þú verður að spila eftir því hvaða leikmenn þú ert með. Fullkomið væri að fá varnarleikinn frá 2021 og sóknarleikinn 2022 í sömu blönduna.“
Arnar telur að mótið verði spennandi á toppnum og setur markið hátt, hann býst við áhugaverðum úrslitum. „Ég held að það verði fleiri lið í þessu, meiri sviptingar í hverri umferð en í fyrra. Valur á skilið að vera þarna, spáin miðast við það sem er í gangi núna. Miðað við hvað þeir hafa gert í vetur, þeir hafa verið sannfærandi í að ná í úrslit.“
Víkingar leika á gervigrasi en eftir þungan vetur gætu grasleikir í upphafi móts orðið áhugaverðir. „Ég dauðvorkenni þessum liðum á grasi, það verður skrautlegt fyrstu fimm umferðirnar. Við erum á KR-velli í þriðju umferð sem gæti orðið fróðlegt. Við töpuðum mótinu á byrjuninni í fyrra, tiki-taka fótbolti er ekki leiðin fyrstu umferðirnar. Við lærðum það í fyrra.“