Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool, útilokar það að vinna í sjónvarpi á Englandi eftir að ferlinum lýkur.
Van Dijk er 31 árs gamall og á þónokkur góð ár eftir en hann ræddi við Gary Neville, fyrrum leikmann Manchester United, um framtíðina.
Hollendingurinn vill taka sér gott frí eftir að ferlinum lýkur og er ekki með augastað á að gerast þjálfari eða vinna í sjónvarpi sem tekur verulega á.
,,Ég er ekki að hugsa um hvað ég geri í lok ferilsins ennþá en ég vil vera með eitthvað plan áður en ég legg skóna á hilluna,“ sagði Van Dijk.
,,Ég vil vera hluti af fótboltanum en ég vil líka fá að lifa í friði. Ég vil fá að taka mér frí og eyða meiri tíma með fjölskyldunni, eitthvað sem er mér mjög mikilvægt.“
,,Ef þú ferð beint út í þjálfun þá verður staðan eins, þú færð engan tíma til að hvíla þig og ná þér. Eitt sem ég get staðfest er að ég mun aldrei gerast sparkspekingur í ensku sjónvarpi.“