Fjölmiðla- og umboðsmaðurinn Þorkell Máni Pétursson var gestur Íþróttavikunnar með Benna Bó í þetta skipti. Hann var í setti ásamt Herði Snævari Jónssyni, fréttastjóra íþróttafrétta á Torgi.
Það var mikil umræða um það í landsliðsverkefni karlalandsliðsins á dögunum að Ívar Ingimarsson neitaði að fara í viðtal við fjölmiðla.
Hann var fyrir hönd stjórnar KSÍ með liðinu úti, en það mætti Bosníu og Liechtenstein.
„Það eru margir í þessum greinum sem þurfa alltaf að vera í sviðsljósinu. Ívar Ingimarsson verður seint sakaður um að hafa verið í því,“ segir Máni.
Hann rifjar upp þegar hann var beðinn um að bjóða sig fram til stjórnar KSÍ og segir það ekki öfundsvert starf.
„Ég spurði strax: Hvað fæ ég borgað fyrir þetta? Það er ekki króna. Þú ert að eyða mörgum klukkustundum í eitthvað sjálfboðastarf þarna og það eina sem þú færð er einhver skítur.
Öll þessi hreyfing er rekin af einhverri sjálfboðastarfsemi. Skíturinn sem gekk yfir stjórnarmenn þegar öll málin voru í gangi. Þetta var vænsta fólk sem var búið að vinna fyrir hreyfinguna.“
Hann bendir á að lenskan hjá KSÍ sé að svara ekki og fara í felur.
„Hefur KSÍ einhvern tímann ekki farið í felur? Það er alltaf upplifunin að fjölmiðlar séu óvinir þeirra. Þetta er vandamálið í allri hreyfingunni. Í stað þess að átta sig á að fjölmiðlamenn eru vinir þeirra.
Fjölmiðlamenn hafa ekki verið vondir við þetta fólk. Þeir hafa bakkað þau upp því við erum í litlu samfélagi.“
Máni bendir á að fjölmiðlafólk gæti hætt að fara með í landsliðsferðir, eins og einhverjir hafa hótað.
„Þeir þurfa jafnmikið á fjölmiðlum að halda og við þurfum á þessum landsliðum að halda.“
Umræðan í heild er hér að neðan.